Stríðið í Eflingu

4. nóvember, 2021

Það kom flatt upp á almenning þegar Sólveig Anna Jónsdóttir sagði upp starfi sínu og formennsku í Eflingu. Og starfsbróðir hennar Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri einnig. Það kom jafnvel enn flatar upp á fólk að ástæðan skyldi vera «vantraust» frá starfsfólki Eflingar.

Tilefni afsagnarinnar var í fyrsta lagi ályktun tveggja trúnaðarmanna starfsfólksins á skrifstofu Eflingar í júní sl. sumar. Í ályktuninni voru borin upp á stjórn Eflingar samningsbrot, tilefnislausar uppsagnir og «aftökulistar» starfsfólks. Í öðru lagi var tilefnið dramatískur fundur með umræddu starfsfólki föstudaginn 29. október. Á þeim fundi gaf Sólveig Anna hópnum tvo kosti, skv. fésbókarfærslu hennar sjálfrar: «Annað hvort kæmi eitthvað skriflegt frá þeim sem myndi bera til baka ofstækisfullar lýsingar úr ályktun trúnaðarmanna og orð sem fréttamaður notaði um „ógnarstjórn“, eða að ég myndi segja af mér formennsku í félaginu.» En niðurstaða starfsmannafundarins varð sú að orð trúanaðarmannanna frá í júní voru staðfest. Þegar sú niðurstaða lá fyrir sagði Sólveig Anna af sér formennsku. Það gerði einnig Viðar Þorsteinsson framkvæmdarstjóri.

Að vísu sögðust fulltrúar starfsmanna ekki hafa ætlast til neinna afsagna af þeim og ekki ætlað með málið í fjölmiðla https://www.ruv.is/frett/2021/11/01/starfsfolk-vildi-leysa-malid-innanhuss en einn stjórnarmaður í Eflingu, Guðmundur Baldursson, var hins vegar á þeirri leið – og raunar farinn með málið í fjölmiðla daginn fyrir þennan föstudagsfund.

Hér er sem sé um að ræða átök milli starfsfólks á skrifstofu Eflingar og hinnar nýju róttæku forustu félagsins sem kosin var 2018. Hvernig skal meta þau átök? Það mætti hugsanlega álykta sem svo að þarna láti Sólveig Anna persónulega líðan sína í vinnunni yfirskyggja baráttu og verkefni félagsins. Það væri þá varla ásættanleg afstaða hjá verkalýðsforingja. Spurningin er: Er réttlætanlegt að láta starfsmannamálin hafa slíkt vægi í starfi félagsins?

Ég tel að Viðar Þorsteinsson hafi svarað spurningunni í Kastljósi sjónvarpsins 2. nóvember. Það var eitt út af fyrir sig, sagði hann, að Sólveig Anna hafði nýlega fengið grófa ofbeldishótun frá starfsmanni á skrifstofu Eflingar. Hitt lagði Viðar samt enn meiri áherslu á að hin umrædda ályktun trúnaðarmannanna frá júní haldi «trúverðugleika félagsins í gíslingu» með «mannorðsdrepandi rangfærslum» um aðferðir forustunnar. Með ásökunum um kjarasamningsbrot, «aftökulista» og slíkt hafi hin nýja forusta verið «svift þeim trúverðugleika sem við þurfum að hafa til að geta rætt um raunveruleg kjarasamningsbrot og raunveruleg vandamál sem Eflingarfélagar úti á vinnustöðunum verða fyrir… Það er ekki hægt að sinna skyldum sínum fyrir hönd félagsins undir þessum kringumstæðum. Það er ekki af því við getum ekki þolað það sálfræðilega að sitja undir þessu, það er einfaldlega af því trúverðugleikinn sem þarf að hafa til að leiða þessa baráttu hann hefur verið tekinn frá okkur.» Sem sé, erfitt að beita sér í nafni réttlætis með þann stimpil um hálsinn að maður ástundi enn verra óréttlæti sjálfur. https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/kastljos/30772/95ertt

Í yfirlýsingu eftir á segjast umræddir tveir trúnaðarmenn ekki hafa sakað stjórnendurna um kjarasamningsbrot, aðeins viljað «upplýsa stjórnendur um vanlíðan starfsmanna á skrifstofu Eflingar». https://www.ruv.is/frett/2021/11/03/sarna-arasir-fyrrum-stjornenda-eflingar?fbclid=IwAR2lbV00dwYGLDImDBdrF9ugI6yFgj33dCoOtx62qaHoR62QbfGcdu31W8E Á það skal þá bent að ásakanair um fyrirvaralausar uppsagnir eru einmitt ásakanir um kjarasamningsbrot. Um samstarfsörðugleika á vinnustað og vanlíðan starfsmanna af þeim sökum er erfiðara fyrir utanaðkomandi að dæma.

Í félaginu stendur stjórnin sterkt

Þá er komið að félagslegu starfi og baráttu Eflingar. Það birtist núna, enn einu sinni, að einhugur og samstaða í stjórn félagsins er mikill í flestum samanburði. Sú samstaða hefur á undanförnum þremur árum birst áþreifanlega í mikilli baráttugetu félagsins, ekki síst í kjarabaráttunni. Félagið háði árangusrríka verkfallsbaráttu, meira en mánaðarlangt verkfall í febrúar og mars 2020 (m.a.s. í upphafi Kóvid-faraldurs), samstaðan órofa og virkni félagsmanna mikil.

Árangurinn varð líka eftir því. Þann 29. október, rétt fyrir sprenginguna í félaginu, mátti lesa á fésbókarfærslu Sólvegar Önnu: «Samkvæmt haustskýrslu kjaratölfræðinefndar er það svo að engin hópur fékk meiri prósentuhækkanir í síðustu kjaralotu en láglaunakonur Reykjavíkurborgar, þar sem samið var um sérstaka viðbótarhækkun lægstu launa, svokallaða "leiðréttingu vegna sögulega vanmetinna kvennastarfa". Ég óska hinum hugrökku láglaunakonum Reykjavíkurborgar til hamingju með hinn raunverulega og magnaða árangur sem þær náðu með því að beita máttugustu vopnum vinnuaflsins, verkfallsvopninu og samstöðunni» bloggaði Sólveig Anna. Lærdómurinn er samkvæmt þessu einfaldur: Baráttan borgar sig og samstaðan sigrar.

Stjórnarmaðurinn Guð­mundur Baldursson hefur snúist gegn forustu félags síns. Hann hefur auk þess farið fram á að varaformaður Efl­ing­ar, Agnieszka Ziółkowska, segði líka af sér með formanninum og kosin sé ný stjórn. Það er þó ljóst að Guðmundur er mjög einangraður í stjórn félagsins. Eftir að hann tjáði sig í fjölmiðlum sendi meirihluti stjórnar honum svar, sbr. Kjarnann 1. nóv: «Allir eft­ir­stand­andi með­limir stjórnar Efl­ingar nema þrír, alls ell­efu manns, hafa sent frá sér yfir­lýs­ingu þar sem þau hvetja Guð­mund Bald­urs­son stjórn­ar­mann til að segja af sér stjórn­ar­mennsku. Þau hvetja hann auk þess til að „láta verða af hug­myndum sínum um stofnun nýs klofn­ings­-­stétt­ar­fé­lags.“» https://kjarninn.is/frettir/meirihluti-stjornar-eflingar-hvetur-gudmund-til-ad-segja-af-ser/?fbclid=IwAR1d9OkN5H1nORP-IdltzSjqgfLi0TEyFMhDc7ma-I0IGfsJgdQ2v9bTKOQ

Geimvera í heimsókn!

Einn bloggari orðar það svo um Sólveigu Önnu: «Hún kom inn í verkalýðsbaráttuna nánast eins og geimvera í óvænta heimsókn til jarðar. Enginn hafði séð svona fylginn sér og kraftmikinn baráttuhund á þessum vettvangi áður.» (Björn Birgisson) Þessi lýsing hittir býsna vel í mark. Sólveig Anna er óvenjulegur og kröftugur verkalýðsforingi. Hitt er líka rétt að «byltingin í Eflingu» var óvænt og fyrirvaralítil en spratt ekki upp úr langvinnu andstöðustarfi í félaginu eða verkalýðshreyfingunni. Þess vegna stendur þessi félagsforusta berskjaldaðari en ella þegar pólitískir mótvindar gnauða á allar hliðar.

Sólveig Anna Jónsdóttir er óvenjuleg um margt, blessunarlega. Hún er «kraftmikill baráttuhundur» í kaupgjalds- og kjarabaráttu fyrir sína umbjóðendur. En hún einskorðar sig ekki við það. Hún lætur sig m.a. varða heimsvaldastefnuna sem íslensk verkalýðshreyfing hefur löngu tekið af dagskrá sinni. Hún er líka glöggskyggn á ESB, það markaðssinnaða bákn, byggt utan um vesturevrópskt einokunarauðvald, hnattvæðingu og heimsvaldastefnu. Nýja Eflingarforustan átti góðan þátt í að stöðva hraðlest ASÍ-forustunnar til Brussel, a.m.k. í bili.

Risinn sofandi og „verkalýðsaðallinn“

Til að skilja átökin kringum félagið þarf samkvæmt Viðari Þorsteinssyni skoða þróunina frá 2018: «Það er lagt upp með risavaxið verkefni sem er að vekja þann sofandi risa sem þetta félag er, næststærsta stéttarfélag landsins og langstærsta félag verka- og láglaunafólks á Íslandi sem hefur ekki verið baráttusamtök áratugum saman.» Til þess þarf að gera stórtækar breytingar á rekstri og skipulagi, sagði Viðar. Varla er þá hægt að sigla bara lygnan sjó.

Og allir verkalýðssinnar hafa fylgst spenntir með þeirri baráttu undanfarin ár. Fylgst með hvatningarræðum, upplýsingarstarfi, skipulagsstarfi. Reynt er að verkja lýðræðið í grasrótinni, passað er að allar aðgerðir séu niðurstaða lýðræðislegrar umræðu, það tryggir víðtækasta samstöðu. Tekinn er fram vopnabúnaður verkalýðsins – og brýndur. Í öllu þessu hefur Eflingarforustan verið fordæmi í verkalýðshreyfingunni.

Það má ekki koma á óvart að átök verði milli nýrrar, baráttusinnaðrar verkalýðforustu og svo skrifstofuliðsins í hreyfingunni. Að verulegu leyti verður að skoða það sem hluta af stéttabaráttunni. Á löngum tíma stéttasamvinnu hefur skrifstofuvald launþegasamtakanna unnið að því að breyta hreyfingunni í innbyggða stofnun í skipulagi, gangverki og valdakerfi auðvaldskerfisins. Sú stofnun beitir sér fyrir áframhaldandi stéttasamvinnu, að svæfa «risann» áfram. Hvað lífskjör og samfélagsstöðu snertir tilheyrir efri hluti þessarar stofnunar fremur auðstéttinni en verkalýð. Samfélagsópur sem oft hefur verið nefndur «verkalýðsaðall».

Boðskapur hins stéttasamvinnusinnaða skrifstofuvalds er að allt sem máli skiptir í verkalýðshreyfingunni gerist á skrifstofunum. En þegar «risinn» sofandi (þá í merkingunni verkalýðurinn) vaknar tekur hann sín hagsmunamál í eigin hendur, úr höndum «verkalýðsaðalsins». Hann hefur að nokkru leyti þegar gert það í Eflingu. Það er að nokkru leyti innihald þeirrar «byltingar» sem Sólveg Anna talar um að gera þurfi.

Það er því nærtækt að líta á baráttu starfsmanna Eflingar gegn félagsforustunni sem uppreisn «verkalýðsaðalsins» gegn þessu róttæka umbyltingarstarfi sem hér um ræðir. Og hagsmunir hans (og líðan) hafa þar meira vægi en verkefni stéttarfélagsins.

Eitt skref tilbaka, og svo

Eins og áður segir má skilja það hvernig starfsmannamál Eflingar fengu svo mikið vægi í starfinu að formaður og framkvæmdaratjóri hröktust úr starfi sínu. Að unnið sé gegn baráttunni í skrifstofubákninu má líka skilja. Spurningin er hvernig halda skal baráttunni áfram þannig að minnstur skaði verði unnin í því tímamótastarfi í verkalýðsbaráttu sem þar hefur verið unnið undanfarin ár. Hér var það bara ein orusta sem tapaðist, ekki stríðið. Það verður þá að stíga eitt skref tilbaka, en gera það til þess að skipuleggja frekari sókn.