Þátttakendur eða áhorfendur? Samræður eru eina vörnin gegn stríði

Jón Karl Stefánsson
17. september, 2025
Duelo a garrotazos, Francisco Goya, 1820.
Mynd: Duelo a garrotazos, Francisco Goya, 1820.

Árið 2016 sótti ég merkilega ráðstefnu í Noregi. Ráðstefnan heitir „Skjervheimseminaret“ og hefur verið haldin árlega frá árinu 1996. Tilgangur ráðstefnunnar er að halda til haga meginhugmyndum norska heimspekingsins Hans Skjervheim, í verki eftir andlát hans.

Líklega þekkja fáir á Íslandi til Hans Skjervheim, en hann hefur haft mikil áhrif á félagsvísindin og á pólitíska umræðuhefð, ekki einungis í Noregi, heldur um heim allan. Frægasta framlag hans til vísindanna eru gagnrýnar hugmyndir sem hann útskýrði í  ritum á borð við „Objectivism and the Study of Man“ og „Vitenskapen om mennesket og den filosofiske refleksjonen“ þar sem hann rekur gagnrýni sína á það hvernig félagsvísindalegar rannsóknir fara oft fram, gagnrýni á umræðuhefð, og á það hvernig fólk deilir hugmyndum sínum á milli.

Frægasta einstaka grein hans er „Deltakar og tilskodar“ (hann skrifaði gjarnan á nýnorsku). Þessa grein mætti þýða sem „þátttakandi og áhorfandi“. Hana má finna í ritgerðarsafni með sama nafni. Greinar hans eru gagnorðar og nákvæmar, og ég mun ganga örlítið gegn inntaki þeirra með því að draga fram megininntakið í mjög einfölduðu máli.

Í þessum verkum gagnrýnir Skjervheim pósitívismann og rannsóknir í félagsvísindum meðal annars fyrir það að nálgast viðfangsefni sín sem hluti sem vísindamennirnir nálgast sem áhorfendur (tilskodar), í stað þess að líta á viðfangsefnin sem flóknar manneskjur sem hægt væri að nálgast sem þátttakendur sem hægt er að ræða við til að öðlast betri skilning á þeim.

Það sem átt er við hér er að vísindamaður sem áhorfandi stendur fyrir utan samfélagið og horfir á fólk eins og maura í maurabúi. Hann mælir, spáir og útskýrir gjörðir fólk eins og það séu hlutir. Vísindamaður sem þátttakandi veit að í samfélaginu er fólk ekki bara hlutir. Það svarar fyrir sig, hefur skoðanir, getur mótmælt og skýrt betur hvað það á við. Til að skilja fólk raunverulega þarf að taka þátt í þeirra heimi, hlusta á merkinguna og eiga raunverulegt samtal. Félagsvísindamenn sem fjalla um fólk á þennan hlutlæga hátt er ekki einungis að afmennska viðfangsefni sín, heldur er nærri öruggt að niðurstöður þeirra verða ófullkomnar, ef ekki beinlínis rangar. Með þessu er engum greiði gerður.

Þessa gagnrýni á félagsvísindin er hægt að yfirfæra á þjóðfélagsumræður almennt. Í stjórnmálum stendur áhorfandinn til hliðar og greinir, dæmir, eða reiknar út hvað „virkar“ eða virkar ekki án þess að taka þátt í rökræðum. Hann lítur á stjórnmál sem tæknilegt vandamál sem þarf að leysa. Hann „veit“ fyrir fram hvað er rétt og leitar leiða til að koma því til leiðar.

Þátttakandi tekur hins vegar þátt sem borgari á jafnræðisgrundvelli. Hann ræðir, hlustar og svarar. Hann getur jafnvel fengið upplýsingar sem stangast á við fyrir fram gefnar ályktanir. Þegar vel tekst til verða samræðurnar til þess að báðir aðilar færast nær sannleikanum, og sannleikurinn skiptir máli. Hér er ekki litið á „hina“ sem vandamál sem þarf að stýra, heldur sem jafningja í samtali. 

Skjervheim benti á að ef stjórnmál eru fyrst og fremst í höndum áhorfenda, þá t.d. „sérfræðinga“ og álitsgjafa, embættismanna eða annarra kennivalda, þá veikist lýðræðið. Almenningur missir smám saman völdin; hann verður tæki sem teknókratar læra að stýra, en taka sjálfir helstu ákvarðanir. Raunveruleg stjórnmál krefjast þess að fólk sé virkir þátttakendur í rökræðu, þar sem menn viðurkenna hvern annan sem jafningja, með jafnan rétt.

Samræður eru leiðin að réttum ályktunum

Það er á þessum grundvelli sem Skjervheimseminaret er haldið ár hvert. Þar er sérstök áhersla lögð á að draga fram fólk sem hefur ólík sjónarhorn, skoðanir og reynslu, til þess að taka þátt í þriggja daga ráðstefnu þar sem umræður fara fram á jafningjagrundvelli, án skotgrafarhernaðar og án fúkyrða. Á hverju ári er valið samfélagslega „heitt“ viðfangsefni; úr vísindunum, úr þjóðfélagsumræðu og öllu öðru sem skiptir máli. Hér lærir fólk að heyra sjónarmið og fá staðreyndir sem stangast á við fyrir fram gefnar forsendur þeirra sjálfra. Niðurstaðan er ætíð að öll fara úr ráðstefnunni betur upplýst, með betri skilning fyrir ekki einungis viðfangsefnunum, heldur skilja að „andstæðingurinn“ er ekki óvinur, ekki „hinn“, heldur manneskja eins og hún sjálf sem býr yfir upplýsingum sem hún hefur ekki, sjónarhorn sem eru þeim mikilvæg, og gildismat sem verður að taka tillit til.

Við og hin: Uppspretta haturs og vanþekkingar

Því miður virðist heimurinn vera að fara í þveröfuga átt við það sem Skjervheim sjálfur sá fyrir sér, að undanskildum fallegum eyjum á borð við ráðstefnuna sem ber nafn hans. Það er í raun ekki að undra. Það er mjög auðvelt fyrir manneskjuna að falla í þá gryfju að skipta heiminum upp í „okkur“, og „hin“. Þá erum „við“ góða fólkið; „hin“ eru vonda fólkið, óvinurinn. Í sálfræði er þetta kallað grundvallar eignunarskekkjan (fundamental attribution error). Ótal rannsóknir hafa sýnt fram á að að öllu jöfnu, þá gerist það þegar fólk fer að líta á sig sem hluta af einhverjum hópi (aðdáendur Liverpool; karlar, konur, hvítir, svartir, vinstrimenn, hægrimenn o.s.frv.), þá koma fram fyrirsjáanlegar hugsanaskekkjur. Þetta gerist meir að segja þegar um er að ræða algjörlega tilbúna hópa (sjá nánar um Granfalloon skekkjuna). Mistök mótaðilans eru eignuð innri göllum, meðan mistök „okkar“ eru afleiðingar aðstæðna og tilviljana. Þegar vel tekst til hjá „okkur“, þá er það vegna innra eðlis okkar, en þegar vel tekst hjá „hinum“, er það vegna heppni, aðstæðna o.s.frv. 

Það er mjög auðvelt fyrir okkur öll að verða rasistar eða kynjarembur. Hatur er auðvelt. Til að berjast gegn því þarf andlega vinnu. Að virkilega hlusta á einhvern sem þú lítur á sem hluta af „hinum“ er erfitt. En það er algerlega nauðsynlegt svo við endum ekki í hryllilegu samfélagi. Án þess að leggja í þá vinnu að læra að bera virðingu fyrir fólki sem deilir ekki sjónarhorni, skoðunum eða gildismati manns, er fyrirsjáanleg afleiðing einfaldlega afturhvarf til heims þar sem ofbeldi og hatur gegn mótaðila réði ríkjum. Þegar við erum farin að fagna morðum á meðlimum „hinna“, án þess að hlusta, og höfum ekki í okkur andlega getu til þess að rökræða við viðkomandi, þá erum við að gera heiminn að dimmari stað. 

Getan til að hugsa óhlutbundið

Grundvallareignunarvillan og aðrar hugskekkjur sem heilinn grípur til þegar hann er latur er óvinur ekki einungis lýðræðis og þekkingar, heldur beinlínis eitthvað sem við ættum að skammast okkar fyrir. Við verðum blind á það að aðrir en okkar hópar búa við sínar eigin raunir, hafa sínar eigin þrár og drauma, og eru alveg eins „góð“ og við. Við erum öll manneskjur, hvaða litarhaft eða kynvitund sem við höfum. Það er mjög auðvelt að vera fræðilega óheiðarlegur og draga einungis fram sönnunargögn sem sanna hina fyrir fram gefnu ályktun að „við“ séum betri en „hin“. Til þess að berjast gegn þeirri tilhneigingu lata heilans er ekki nóg að öskra á mótaðilann. Við verðum ætíð að líta í eigin barm. Við verðum að horfast í augu við sönnunargögn sem styðja ekki það sem við teljum augljóst, satt og rétt án frekari skoðunar. Þegar kemur að því að hata einhverja „hina“, þá helgar tilgangurinn ekki meðalið. Ef við föllum í þá gryfju, þá erum við vandamálið, orsökin liggur hjá okkur. Við getum ekki afsakað eigin hegðun með því að benda á aðra. „Við“ erum ekki einungis jafngóð og „hin“, við erum líka jafnvond. Það eru athafnir okkar sem ráða því hvort „okkar“ áherslur eru réttar eða rangar.

Bergmálshellar og skotgrafir

Lengi hefur verið varað við því að hinir nýju samfélagsmiðlar, spjallhópar sem hleypa einungis innvígðum inn og flokkanir sem því fylgja, skapi bergmálshella þar sem þeim er umbunað sem eru öfgafyllstir í hatri sínu gegn „hinum“, en þeir sem malda í móinn upplifa refsingar. Þetta leiðir til æ meiri sundrunar samfélagsins, æ meira haturs, æ minni áherslu á að hlusta og skilja. Höfum þetta í huga næst þegar við gerumst meðlimir í lokuðum hópum sem spyrja hvor aðra hvaða skoðanir er rétt að hafa.

Freisting klíkunnar

Það er ekki einungis hugskekkjur sem valda því að aðild að bergmálshellum er freistandi. Það er um leið grundvallareðli manneskjunnar að vilja tilheyra hópi. Það veitir hlýja tilfinningu að tilheyra hópi útvaldra, hinna góðu. Því ógeðslegri sem „hinir“ eru látnir hljóma, þeim þægilegri og hlýjari tilfinning er það að tilheyra þessum frábæra hópi. Það er eins og að vera aðalhetja ævintýris; hugdjörf hetja sem berst gegn ógeðslegum skrímslum. Hrós frá öðrum aðilum í þessum lokaða hópi er kraftaverk fyrir sálina. Það krefst styrks að standast þessa freistingu.

Alræði áróðursmeistaranna

Í þessu umhverfi, þar sem ekki er hlustað á raddir „hinna“, en um leið hlustað á „sérfræðinga“ sem styðja málflutning „okkar“, verður svo einn hópur allsráðandi. Þetta eru atvinnumenn í áróðurstækni; almannatenglar og fjölmiðlafulltrúar, auglýsingasérfræðingar og spunameistarar sem vinna á bakvið tjöldin við að skapa skilaboð sem hljóma sannfærandi; helst sem „sjálfsagður sannleikur“. Þeir sem tilheyra þeim hópi eru fjármagnaðir af þeim sem þegar hafa völdin. Þeir kunna að spila með tilfinningar, þeir skrifa „fréttir“, sem jafnvel vönunstu blaðamenn falla fyrir og dreifa upplýsingum sem stjórna miklu af því sem okkur finnst, og því sem við höldum að sé rétt. Þegar við hættum að nota orku til að bæla sjálfkrafa reiðiköst okkar gegn röddum „hinna“, gefum við þeim völd. Þetta verða ósýnilegir stjórnendur heimsins.

Ofgnótt upplýsinga hefur því miður ekki leitt til upplýstari ákvörðunartöku eða skilningsríkari heims. Útlit er fyrir að hatrið sé að sigra, og það eru ekki alltaf „hinir“ sem standa á bakvið það.